Lau. 12. maí 2001
Bretar kjósa til þings
Bresk
stjórnmál eru yfirleitt skemmtileg. Breska þingið iðar
yfirleitt af lífi, þar sem þingmennirnir hlæja og púa og
minnir samkoman oft frekar á fjörugan málfund en virðulegt
þjóðþing. Þetta á einnig um kosningabaráttuna, sem er laus við
blöðrur og skrautsýningar Bandaríkjamanna. Málefnaleg umræða
er mikil og deila jafnvel menn á stefnuskrá eigin flokks ef
því er að skipta.
Fjórar vikur eru til þingkosninga
í Bretlandi, kosið verður 7. júní. Kosningabaráttan er nú
að fara í gang af fullum þunga og fékk Tony Blair að kenna á
því í þinginu, bæði frá William Hague forsætisráðherraefni
Íhaldsflokksins og Charles Kennedy frambjóðanda Frjálslyndra
nú síðustu daga.
Íhaldsflokkurinn kynnti í fyrradag
stefnuskrá sína. Ætlar flokkurinn að lækka skatta á
bensíni - og þar með verðið - um 6 pens per lítra, en Bretar
búa, rétt eins og við Íslendingar, við mikla skattlagningu á
bensíni, yfir 70%.
Áhersla Íhaldsmanna fyrir þessar
kosningar eru skattalækkanir. Auk lækkunar skatta á bensín
vilja þeir lækka aðra skatta um átta milljarða punda sem þeir
ætla að ná með aukinni skilvirkni. Einnig ætla þeir að stöðva
aukna skattheimtu sveitarfélaga.
Hague hefur nú
undanfarið sakað Blair um að vilja kasta pundinu fyrir
róða og taka upp evruna. Hefur Hague lýst því yfir að hann og
flokkurinn munu standa vörð um pundið breska og ekki komi til
greina að Bretar taki upp evruna.
Íhaldsmenn eiga á
brattann að sækja, mælast með rúm 30% í skoðanakönnunum á
meðan Verkamannaflokkurinn er með um helming fylgisins.
Frjálslyndir með Charles Kennedy í broddi fylkingar mælast með
13-15%. Hafa Frjálslyndir einir flokka lýst yfir að þeir muni
hækka skatta til að efla heilbrigðis-, mennta- og
almannatryggingakerfið. Þeir segja, rétt einsog
Íhaldsflokkurinn, að skólakerfið hafi verið á niðurleið síðan
Tony Blair fluttist í Downingstræti og þar þurfi að spyrna við
fótum.
Íhaldsmenn hafa blásið til sóknar og
setja skattalækkanir - en um leið bætt heilbrigðis- og
menntakerfi með aukinni skilvirkni - á oddinn. Þeir vilja
tryggja að völdin verði áfram í London, en ekki í Brussel og
halda breska pundinu. Þeir gagnrýna Tony Blair og stjórnartíð
hans fyrir að hafa ekki orðið ágengt í þeim málum þar sem
brýnast er þörf; velferðar- og skattamálum.
Síðustu
fjögur ár hafa verið góð fyrir breskan efnahag. Verðbólga
er í lágmarki og vextir hafa ekki verið lægri í 35 ár. Stjórn
Verkamannaflokksins nýtur góðs af því. Flokkurinn hefur sterka
stöðu og boðar bjarta tíma með efnahagslegum stöðugleika undir
áframhaldandi forystu Tony Blairs. Þrátt fyrir það mun
stefnuskrá flokksins ekki verða kynnt fyrr en í næstu viku og
það eina sem fæst uppgefið frá forystu flokksins er að hún
muni „auðvelda fólki valið milli Verkamannaflokksins og
Íhaldsflokksins“. Það skulum við rétt vona!
ÁF
<< Til baka