--->
  Frelsarinn
   Prenta þessa grein · Senda vini

 
Fös. 2. mars 2001
Stafrænn skattur

Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, samþykkti á dögunum reglugerð um innheimtu höfundarréttargjalda. Þýðir það að nú leggjast m.a. 35 kr. á hvern venjulegan óskrifaðan geisladisk, 1% gjald verður af tölvum sem innihalda geisladiskaskrifara og 4% verða innheimt af ýmiskonar tækjum til afritunar, m.a. geisladiskaskrifurum.

Tollayfirvöld innheimta gjaldið, sem rennur til eigenda höfundarréttar. Hagmunasamtök eigendur höfundaréttar, STEF, verja þessa reglugerð á þeirri forsendu að gífurlegt magn efnis sem heyri undir höfundaréttarlög sé afritað ólöglega og geri stafræn tækni það nú mun auðveldara auk þess sem gæðin haldast betur.

Napster-réttarhöldin hafa verið mikið í fréttum undanfarna mánuði og er ekki ennþá ljóst hvernig þeim málum lyktar. Þar snýst deilan einmitt um ólöglega afritun tónlistarefnis. Hafa þó margir tónlistarmenn stigið fram og bent á að þarna gefist fólki kostur á því að kynna sér áður óþekktar hljómsveitir. Tónlist hljómsveita sem fá ekki mikla dreyfingu getur þarna verið farin að berast til eyrna fólks frá New York til Neskaupsstaðar. Margir hafa því bent á kosti þessarar „heims-útvörpunar“.

Höfundarréttur verður að sjálfsögðu að vera virtur. Það er hinsvegar spurning hvað við sættum okkur við að hann nái langt. STEF rukkar t.a.m. hárgreiðslustofur og líkamsræktarstöðvar um höfundaréttargjöld fyrir tónlist sem þar er spiluð eftir fermetratali. M.ö.o. mega hárgreiðslustofur og önnur þjónustufyrirtæki ekki hafa opið fyrir útvarp öðru vísi en það teljist opinber flutningur þess sem úr því heyrist og því þurfa þau að borga sín gjöld. Frelsarinn veit líka dæmi þess að rukka átti fyrirtæki eitt í borginni fyrir að hafa opið fyrir útvarp á lager sínum, þar sem viðskiptavinir fyrirtækisins komu til að sækja vöru inn á lagerinn. Urðu starfsmennirnar þar af fréttum og umræðuþáttum, þar sem STEF hélt því fram að fyrirtækinu bæri að greiða gjöld fyrir útvarpsspilunina, á fermetraverði og því hefði dýr Hafliði allur verið ef málið hefði ekki verið leyst með vasadiskóum.

Það sem er verst við reglugerð menntamálaráðherra er þó skilningsleysið sem virðist ríkja hjá ráðuneytinu gagnvart þeim sem þurfa að nota mikið af geisladiskum vegna síns atvinnureksturs. Fyrirtæki eru flest með einhverja tölvuvinnslu nú orðið og er mjög algengt að þau taki afrit af öllum gögnum reglulega á geisladiska. Hefur þetta hingað til verið ódýr og góð leið með litlum stofnkostnaði. Nú þurfa fyrirtækin í raun að borga öðrum höfundaréttargjöld af eigin bókhaldi! Fyrirtæki sem starfa á sviði upplýsingatækninnar fara þó verstu út úr þessu, þar sem kostnaður vegna geisladiskakaupa getur hækkað við þessa reglugerð um tugi prósenta. Því má í raun líkja þessu við að höfundaréttargjald væri lagt á hvítan pappír. Það sér hver maður hvurslags firra þetta er.

Þjóðin hefur líka látið í sér heyra. Undirskriftalisti á netinu telur þegar þetta er skrifað á fjórtánda þúsund undirskriftir. Það er nokkuð ljóst að þessi leið, sem hér hefur verið farin, er ekki sú rétta til að ná tilætluðum árangri. Danir hafa kynnst því nýverið. Þar var samkonar gjald lagt á geisladiska, nema hvað það nam aðeins einni danskri krónu (um 10,60 íkr). Tveimur vikum eftir að gjaldið var sett á var það afnumið vegna harðra mótmæla almennings. Því skorar Frelsarinn á almenning að mótmæla þessari gjaldtöku og jafnframt á menntamálaráðherra að láta segjast og flauta gjaldtökuna af.

    ÁF

   << Til baka
............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............