--->
  Frelsarinn
   Prenta þessa grein · Senda vini

 
Mán. 18. júní 2001
Hans hátign

Flokkur Simeons II. vann stórsigur í þingkosningunum í Búlgaríu í gær. Hlaut um 40% atkvæða, tvisvar sinnum fleiri atkvæði en Lýðræðisbandalagið, næst stærsti flokkurinn, sem nú fer með völd í landinu.

Simeon II. stofnaði flokk sinn í apríl síðastliðnum. Hefur honum verið tekið sem þjóðhetju hvert sem hann hefur komið en andstæðingar hans ásaka hann um að vera lýðsskrumara, sem byggi á tálsýninni einni um betri lífskjör undir hans stjórn.

Búlgaría er mjög fátækt land og fimmti hver maður er atvinnulaus. Hafa því háleit markmið Simeons um skattaívilnanir, hærri laun og minna atvinnuleysi hlotið hylli meðal almennings. Það sem er þó einna athyglisverðast er að Simeon sjálfur er hvergi í kjöri. Hann fær ekki að bjóða sig fram, þar sem hann hefur búið á Spáni nær allt sitt líf. Pólitísk staða hans er því mjög óljós, hann mun greinilega stjórna á bak við tjöldin en þegar hann var spurður hvort hann ætlaði sér að endurreisa konungsveldið svaraði hann því til, að önnur verkefni væru mikilvægari og hann ætti skilið meira traust en það.

Hvort Búlgarar megi nú búast við að Simeon reyni að koma aftur á konungsveldi í landinu eða ekki skal ósagt látið, um það eru menn ekki sammála. Hinsvegar er ljóst að það yrði þá í fyrsta skipti sem konungur næði völdum með kosningu síðan Loðvík Napóleon gerði það í Frakklandi 1852, þegar hann tók sér keisaratign eftir tveggja ára forsetatíð. Reyndar var þingbundinni konungsstjórn komið á á Spáni eftir fráfall Francos fyrir aldarfjórðungi.

Simeon er kvæntur inn í spænsku konungsfjölskylduna. Hann hefur búið í Madrid mest allan þann tíma síðan hann flúði ásamt móður sinni, Ioönnu drottningu, 1946. Hann er fæddur 1937 og varð konungur eftir sviplegt andlát föður síns, Borisar III. 1943. Hann hefur stundað viðskipti og rekið fyrirtæki og kom ekki til Búlgaríu aftur fyrr en fyrir fimm árum síðan. Hann fluttist svo loksins til landsins í ár og var fagnað sem þjóðhetju. Hann fær ekki að bjóða sig fram, samkvæmt dómsúrskurði, en hann ætlaði að bjóða sig til forseta. Simeon II. þykir mjög virðulegur og koma vel fyrir, er kurteis og myndarlegur.

Eftir stríð Rússa við Tyrki 1877-78 varð Búlgaría ríki. Þá var aðeins um lítið landssvæði að ræða en afi Simeons, Ferdinand, sem tók sér konungstign 1908, styrkti sjálfstæði ríkisins og var það nú algjörlega laust undan Tyrkjum. Eftir fyrri heimstyrjöldina varð hann þó að segja af sér, því Búlgarar börðust með Miðveldunum í von um að ná undir sig Makedóníu. Sonur hans, Boris, tók við og ríkti til dauðadags 1943. Hann tók sér einræðisvald 1938 og studdi Þjóðverja í seinni heimstyrjöldinni, enn í von um að stækka ríkið í vesturátt. Þrátt fyrir að berjast með Þjóðverjum vildi hann forðast átök við Rússa. Eftir stormasaman fund við Adolf Hitler lést hann. Hvort hjartaáfall eða eitthvað annað varð honum að aldurtila er enn óvitað. Simeon II. varð þar með konungur, sex ára gamall. Í september 1944 tóku kommúnistar völdin, eftir að Rauði herinn hafði hertekið landið og, sem fyrr segir, var konungsveldið afnumið 1946 og Simeon steig ekki á búlgarska grund í hálfa öld.

Nú er það spurning hvort tími gömlu konungsættana í Austur-Evrópu sé kominn. Fyrir ári síðan hefðu fáir spáð Simeoni sigri, flokkur konungssinni var þá fámennur og fæstir trúðu að persónutöfrar hans einir dygðu til að vinna kosningar.

Í kosningum 1997 kusu 35% Albana að endurreisa konungsveldið. Erfinginn, Leka Zog, sem býr í Suður-Afríku, segist ekki efast um að fólkið vilji hann sem konung. Líkur hans virðast þó litlar, hann var rekinn úr landi eftir að hafa tekið þátt í mótmælum sem enduðu með ofbeldi og hefur verið handtekinn í Suður-Afríku fyrir vopnaburð.

Alexander Karadjordjevic titlar sig „krónprinsinn af Júgóslavíu“ á nafnspjaldi sínu. Hann hefur búið í útlegð allt sitt líf en ber von í brjósti um að komast aftur til valda og bendir á, í viðtali við Time í vetur, að Kostunica forseti hafi verið konungssinni og tekið þátt í bandalagi stjórnarandstöðuflokka, sem höfðu endurreisn konungsveldisins á stefnuskrá sinni. Möguleikar Alexanders verða þó að teljast litlir, þó ekki væri fyrir annað en að Júgóslavía á nóg af óleystum vandamálum sem eru mun mikilvægari en endurreisn konungsveldisins og því ekki skrítið að Kostunica hafi lítinn áhuga á því núna.

Michael Rúmeníukonungur verður að teljast ólíklegastur til að endurheimta konungstign sína. Hann var konungur 1927-30 og frá 1940 þangað til kommúnistar tóku völdin endanlega 30. desember 1947. Hinn áttræði fyrrum konungur hefur aldrei lýst yfir áhuga á að endurreisa konungsveldið. Flokkur rúmenskra konungssinna var lagður niður fyrir nokkrum misserum.

Simeon sagði sjálfur í blaðaviðtali fyrir nokkrum árum: „Útlægur konungur er frekar aumkunarverður, oft fórnarlamb óréttlátrar meðferðar og skotspónn brandara“. Enginn gerir grín að honum núna, honum hefur tekist hið ómögulega - hann er orðinn einn valdamesti maður lands síns, með lýðræðislegum hætti.

Vonandi verður Búlgaría áfram talin til lýðræðisríkja. Því miður hefur þjóðin ekki búið við lýðræði lengi; fyrri helming aldarinnar var það ólýðræðislegt konungsríki og laut síðan stjórn kommúnista í fjóra áratugi áður en það loksins varð lýðveldi. Þar hefur hinsvegar verið óstöðugt stjórnmálaástand, en núverandi stjórn er sú fyrsta sem líkur fjögurra ára kjörtímabili sínu, aðrar hafa sagt af sér fyrr. Forystumenn flokks Simeons hafa lýst því yfir að þeir muni leita samstarfs við aðra flokka og þar komi Lýðræðisbandalagið fyrst til greina, þar sem hinir stóru flokkarnir er Sósíalistaflokkurinn (flokkur fyrrum kommúnista) og flokkur tyrkneska minnihlutans.

Hlutverk Simeons er óvíst. Hann situr ekki á þinginu en er engu að síður sá sem stjórnar á bak við tjöldin. Hann hefur ekki svarað því hvort hann ætli að endurreisa konungsveldið. Það verður þó að öllum líkindum ekki strax. Vonandi mun þingræðið vera áfram við lýði í Búlgaríu. Að einhverskonar einveldi konungs væri komið á yrði ekki heillavænlegt fyrir þetta fátæka land. Tíminn einn mun leiða í ljós hvað úr verður, en við skulum vona það besta.

Heimildir: Encyclopaedia Britannica, Time Magazine, CNN o.fl.

    ÁF

   << Til baka
............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............