--->
  Frelsarinn
   Prenta þessa grein · Senda vini

 
Mán. 16. júlí 2001
Rússnesk kosning?

Ekki er nema rúmur áratugur síðan Rússland varð lýðræðisríki og oft hafa borist fréttir þaðan sem gefa til kynna að bernskubrek hins unga lýðveldis séu helst til of mörg og afar tíð.

Á tímum Ráðstjórnarríkjanna var samkeppnin engin í viðskiptum. Ekki þótti nein ástæða til að hafa annan hátt á kosningum og var einungis einn flokkur leyfður, Kommúnistaflokkurinn. Flokkurinn missti völdin í lýðræðisbyltingunni fyrir rúmum áratug og síðan hefur hvaða flokki verið frjáls að bjóða fram, hvort heldur er til þings eða sveitarstjórna.

Nú berast fréttir af breyttum kosningalögum í Rússlandi þess efnis að til að fá leyfi stjórnvalda til að bjóða sig fram, þarf flokkur að sýna fram á að hann hafi að lágmarki 100 skráða flokksfélaga í hverju fylki, sem eru 89 talsins, og að lágmarki 10 þús. flokksfélaga á landsvísu. Flokkarnir mega eiga von á að embættismenn dómsmálaráðuneytisins banki upp á og heimti flokksfélagaskránna. Þessi ákvæði eiga bæði við um sveitarstjórnar- og þingkosningar.

Þetta þýðir m.ö.o. að flokkar sem hingað til hafa einungis boðið fram á ákveðnum stöðum í hinu víðáttumikla landi verða nú annaðhvort að bjóða fram á landsvísu eða hvergi. Ef þjóðflokkar Norður-Síberíu vildu freista þess að fá sína fulltrúa á svæðisbundin þing til að gæta hagsmuna sinna er það nú útilokað, því tryggja þarf að flokkurinn hafi 100 skráða félaga í hverju fylki frá Kiev til Kamtjakka.

Talið er að tæplega 200 flokkar séu núna starfræktir í Rússlandi. Fæstir þeirra munu geta uppfyllt skilyrðin fyrir framboði. Stóru flokkarnir sleppa ekki heldur auðveldlega frá þessu. Sumir þeirra hafa vel innan við 10 þús. flokksfélaga, þannig eru þeir einfaldlega ekki upp byggðir, og þeir sem fyrir eru er misdreifðir um landið.

Hvernig í ósköpunum geta þingmenn Dúmunnar samþykkt þessi lög? 261 þingmaður greiddi atkvæði með en aðeins 56 á móti. Með þessu eru stóru flokkarnir að tryggja sér völdin betur. Með þessu er tryggt að þeim er ekki ógnað af nýjum spútnik-flokkum (gleymum ekki Zhyrinovsky hér um árið), því nú þurfa nýir flokkar að leggjast í mikla undirbúningsvinnu um allt land til þess eins að fá að bjóða fram, jafnvel til svæðisbundinna þinga.

Rússneskum valdhöfum hefur í sögunni tekist að skrumskæla það stjórnkerfisfyrirkomulag sem hefur ríkt hverju sinni. Keisaraveldið var það íhaldsamasta og eitt það versta í Evrópu. Kommúnisminn varð skrímsli í höndum Lensíns og eftirmanna hans. Kapítalisminn var misnotaður með misheppnaðri einkavæðingu og öðru klúðri í tíð Jeltsíns. Nú virðist lýðræðisfyrirkomulagið vera næst í röðunni. Hin nýja Kremlarkynslóð virðist ætla að tryggja sig í valdasessi með því útiloka aðra en fáa útvalda af kjörseðlunum í viðleitni til að skapa ósnertanlega valda-elítu innan Kremlarmúra. Það væri óskandi að Kremlverjar reyndu að skilja hugmyndafræði lýðræðisins betur en þeir gera núna. Með þessum lögum er stigið skref afturábak í lýðræðisþróun Rússlands, því miður.

Heimild: The Moscow Times 25.5.2001

    ÁF

   << Til baka
............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............