--->
  Frelsarinn
   Prenta þessa grein · Senda vini

 
Fös. 13. apríl 2001
Frelsi til að deyja

Hollendingar hafa í gegnum aldirnar talist til frjálslyndari þjóða. Allir þekkja til fíkniefnalöggjafar þeirra og þeir hafa verið í fremstu röð hvað frelsi einstaklingsins varðar. Má þar nefna réttindi samkynhneigðra sem dæmi en nýleg lög heimila m.a. ættleiðingar hollenskra barna til samkynhneigðra para og hafa þau sama rétt til hjónabands svo og eru slík hjónabönd jafnrétthá hvað erfðir og annað slíkt varðar.

Nú hefur hollenska þingið tekið enn eitt skref, en jafnframt afar umdeilt, í frelsisátt fyrir þegna sína. Í vikunni samþykkti efri deild hollenska þingsins lög sem heimila líknardráp. Áður hafði neðri deild þingsins samþykkt það.

Lögin er þó nokkuð ströng. Læknirinn þarf að vera þess fullviss að ákvörðun sjúklingsins, um að binda enda á líf sitt og þjáningar, sé óþvinguð, velígrunduð og endaleg. Hann þarf líka að vera þess fullviss að þjáningar sjúklingsins séu óbærilegar og þarf einnig að upplýsa hann um ástand sitt og batahorfur. Læknirinn þarf að hafa fylgt viðteknum venjum í læknismeðferð sjúklingsins og annar læknir þarf að hafa metið ástandið.

Kaþólikkar og heitkristið fólk hefur mótmælt hástöfum í Hollandi. Kaþólskir skólar gáfu frí til að nemendur gætu slegist í lið með mótmælendunum sem margir veifuðu Biblíum og vitnuðu í hina heilögu ritningu.

Seint verða menn sáttir um réttmæti líknardráps. Þeir sem hafa barist gegn lögleiðingu þess beita helst þeim rökum að Guð einn eigi að dæma lifendur og dauða og það sé ekki í okkar verkahring að ákvarða það sjálf. Kaþólikkar, með páfann í broddi fylkingar, hafa mótmælt kröftuglega í Evrópu og ýmsustu trúflokkar í Bandaríkjunum. Sjálfsmorð er dauðasynd í kaþólskri trú og hefur alltaf verið mikið feimnismál. Því eiga þeir hægt um vik að vísa í Biblíuna og benda á vers sem segja að menn hafi ekki rétt til að taka eigið líf.

Á móti hafa fylgismenn líknardráps bent á allar þær sálir sem þurfa að þjást, að því er virðist að óþörfu. Líf manna sé hægt að lengja með aðstoð lyfja og tækja, þó það sé oft á tíðum ekki til neins annars en að auka þjáningar sjúklingsins og aðstandenda hans. Fjölskyldan bíður í raun eftir að kallið komi og líkami sjúklingsins gefist loks upp en síðustu dagarnir, jafnvel vikurnar eða mánuðirnir eru samfelld heljarkvöl fyrir sjúklinginn sem bíður þess einungis að fá eilífan frið.

Einnig hafa menn bent á möguleikann á líffæragjöfum. Deyjandi sjúklingar, sem þurfa á nýju líffæri að halda, oft fólk í blóma lífsins, yrðu lífgjöfunni fegnir. Þannig yrðu þjáningar þeirra sjúklinga linaðar fyrr.

Líknardráp er neyðarúrræði, á því leikur enginn vafi. Hver einstaklingur hefur frelsi til að lifa, því hljótum við öll að hafa frelsi til að deyja líka. Hverskonar líf er það að bíða kvalinn eftir dauðanum - vitandi það að það er enginn von um bata? Ekki líf sem nokkur maður óskar sér. Því fagnar Frelsarinn lögleiðingu Hollendinga á líknardrápi og vona að aðrar þjóðir, m.a. Íslendingar, fylgi í kjölfarið. Því einstaklingurinn hefur rétt á að lifa - og deyja.

    ÁF

   << Til baka
............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............