--->
  Frelsarinn
   Prenta þessa grein · Senda vini

 
30.11.2000
Jóhanna af Örk

Jóhanna hefur verið iðin við kolann að eltast við sægreifa og laxveiðimenn og telur sig sjálfsagt vera komna í feitt þarna. Þar skjátlast blessuninni. Hækkun fjármagnstekjuskatts hefur víðtækari áhrif en Jóhanna virðist átta sig á.

Í dag greiða fyrirtæki 30% tekjuskatt. Þau hafa heimild til að nýta sér tap fyrri ára en á móti kemur að eignaskattur er hærri og lagður á allar eignir, auk þess sem ekki er persónuafsláttur líkt og hjá einstaklingum. Því lítur dæmið svona út í dag:
  • Af hverjum 100 krónum í hagnað sem greiddar eru út úr fyrirtæki sem arður fara 30 kr. í tekjuskatt í upphafi og því næst 7 kr. (10% af 70 kr.) í fjármagnstekjuskatt. Samtals renna því 37 kr. af 100 til ríkisins, m.ö.o. 37% raunverulegur skattur á fjármagnstekjur.
Skattbyrðin er því mjög svipuð og á tekjur einstaklinga. Hins vegar ef jafnhár skattur væri lagður á fjármagnstekjur og launatekjur, einsog Jóhanna vill, liti dæmið svona út:
  • Af hundraðkallinum færi 30 kr. í tekjuskatt fyrirtækisins. Af 70 kr. sem eftir standa færi 38% til ríkisins, eftir stæðu aðeins 43,40 krónur, m.ö.o. þýddi þetta 56,6% raunverulegan skatt!
Sama er upp á teningnum þegar kemur að leigutekjum. Til að fá sömu tekjur af húsnæði sínu þyrfti eigandinn að hækka leiguna um u.þ.b. 45% ef leigutekjur væru skattlagðar á sama hátt og launatekjur (38%).

Hækkun fjármagnstekjuskatts kemur líka niður á almennri bankastarfssemi. Ef við gefum okkur að vextir af almennri bankabók séu 5%, þá fær eigandinn 4,5% vexti af henni í dag. Með fjármagnstekjuskatti Jóhönnu fengi sami eigandi 3,1% vexti, um 2/3 hluta þess sem hann áður fékk.

Athugið að í öllu dæmunum hér að ofan er gert ráð fyrir að fullnýttur sé persónuafláttur viðkomandi og gengið út frá 38% skatti af launatekjum, sem er þó mismunandi eftir búsetu vegna mismunandi útsvars sveitarfélaga. Einnig skal bent á að hátekjuskattur er 7%.

Einn helsti ávinningurinn við að stofna einkahlutafélag fyrir einstaklinga með rekstur er að þá getur viðkomandi (fyrirtæki) frestað hluta skattgreiðslanna um óákveðinn tíma. Lögin heimila frestun á söluhagnaði og einnig ávinnst skattalegur munur upp á 8% ef hagnaðinum er haldið í fyrirtækinu og fjárfest fyrir hann í t.d. áhöldum, húsnæði eða annarri uppbyggingu fyrirtækisins. Það er því rangt skilið hjá Jóhönnu að einkahlutafélagaformið sé einungis til hagsbóta fyrir viðkomandi eigendur. Aukin fjárfesting í þjóðfélaginu hlýtur að vera af hinu góða. Ef Óli málari fjárfestir t.d. í vinnulyftu sem eykur afköst hans umtalsvert miðað við gamla stigann, þá er það að skila þjóðfélaginu mun meira en ef hann kysi að taka hagnaðinn út og fara í sumarleyfi með fjölskylduna til Mallorca.

Aukin skattbyrði á fjármagnstekjur hlýtur að kalla á aukna ávöxtunarkröfu fjárfesta. Þeir dansa ekki eftir höfði Jóhönnu, svo mikið er víst. Aukin ávöxtunarkrafa á fyrirtæki fer út í markaðinn, í formi hækkandi verðs og þar með minnkandi kaupmáttar. Er það sem Jóhanna vill stuðla að?

Aukin skattbyrði á leigutekjur hlýtur á sama hátt geta einungis haft tvennt í för með sér; leigan hækkar eða svik undan skatti á leigutekjur aukast. Hvort tveggja er slæmt fyrir þjóðfélagið. Hækkandi leiga er búin að vera vandamál á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri og væri þetta til ills fyrir alla aðila. Skattsvik eru aldrei af hinu góða fyrir ríkið.

Fjármagnstekjuskattur er tvískattlagning í eðli sínu. Til að eignast eitthvað sem getur gefið af sér fjármagnstekjur þurfum við að vinna fyrir því, þegar við fáum tekjur eru þær skattlagðar, eins er t.d. með arf, hann er einnig skattlagður. Fjármagnstekjur fáum við af sparnaði okkar, hvort heldur sem er um verðbréf, bankabækur eða fasteignir að ræða. Þarna er verið að letja fólk til að leggja fyrir. Þannig minnkar sparnaður í þjóðfélaginu, sem er slæmt fyrir hagkerfið. Því hljótum við öll að mótmæla þessum tillögum!

    ÁF

   << Til baka
............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............ ............