Mið. 25. apríl 2001
Girðingar
Á sunnudaginn var
birti Morgunblaðið leiðara úr The Economist frá 31. mars
sl. þar sem raktar voru ástæður þess að rýmka þyrfti lög um
innflytjendur. Þær „girðingar“ sem þjóðir heimisins hafa
slegið upp umhverfis landamæri sín, að sögn til verndar eigin
hagsmunum, á að fella niður. Hvers vegna? Jú, vegna þess að
það myndi hafa góð áhrif á landið sem það myndi gera, auk þess
að auka frelsi íbúa heimsins, þar sem fólk sem býr við slæmt
ástand heima fyrir, gæti flutt sig til annars lands og búið
þar við betri skilyrði og tækifæri en í gamla landinu. Sama
fólk á í dag hættu á að vera sent aftur heim, ef það reynir að
flýja ástandið heima fyrir. Oft er eini möguleikinn að sækja
um pólitískt hæli en það er bæði flókið ferli og ekki er
hverjum sem er veitt slíkt hæli, einsog mímörg dæmi sanna,
m.a. hér á landi.
Með reglulega millibili berast
fréttir af örvæntingarfullum tilraunum flóttafólks til að
komast til vestrænna landa. Hver man ekki eftir litla Elian
Gonzales? Eða hálfu hundraði kínverskra flóttamanna sem
köfnuðu í flutningagámi í Bretlandi fyrir ekki svo löngu
síðan.
Ryðdallar, gámar, gúmmíslöngur, flekar og
hjólabúnaður flugvéla, allt þetta er notað til flóttans,
sem yfirleitt er skipulagður af hákörlum sem taka mikið fyrir
sinn snúð og bera heilsu fólksins síður en svo fyrir brjósti,
þegar þeir troða fleiri tugum manna í flutningagám eða flytja
það á ofhlöðnuð ryðdöllum sem engan veginn eru hæfir til
sjóferða.
Engar nákvæmar tölur eru til yfir fjölda
ólöglegra innflytjenda en talið er að fleiri hafi komist
inn fyrir landamæri ESB-landanna en sóttu þar um hæli, sem
voru um 450.000 manns. Þar sem hömlur eru miklar, eins og í
ESB-löndunum, reynir fólk að fara í kringum lagabókstafinn með
því að sækja um pólitískt hæli ef til þess næst. Á landamærum
Bandaríkjanna og Mexíkó hefur landamæragæsla verið aukin og
fyrir vikið reyna æ fleiri að komast til Lands tækifæranna með
því að ganga hættulega eyðimerkurstíga.
Á sama tíma
og fólk finnst látið vegna súrefnisskorts í loftþéttum
vöruflutningagámum og fólk fleytir sér yfir opið haf á
gúmmíslögunum, spretta upp öfgafullir stjórnmálamenn sem ala á
andúð og hræðslu í garð innflytjenda. Góð dæmi þess eru í
Austurríki og Ástralíu. „Hófsamari“ stjórnmálamenn hafa lagt
það til í Þýskalandi að konum verði borgað fyrir að eignast
börn, svo innflytjendur verði ekki fleiri en „sannir“
Þjóðverjar og Japanir leyfa ekki öðrum innflytjendum að vinna
störf ófaglærðra verkamanna nema þeir séu af japönskum ættum.
Hér á landi er FÍÞ besta dæmið um félagsskap af þessu meiði en
fyrir utan ummæli og ályktanir örfárra, sem vilja senda fólk í
samræmt próf í íslensku áður en það fær ríkisborgararétt, hafa
íslensk stjórnmál ekki snúist mikið um innflytjendur.
Innflytjendur taka ekki vinnuna frá heimamönnum
Þetta byggist m.a. á því einfalda lögmáli að eftirspurn eftir
vinnuafli er ekki fasti, vinnumarkaðurinn þarf ekki bara
ákveðinn fjölda manna til að sinna vinnunni. Með hverjum íbúa
landsins eykst þörfin fyrir ýmsa framleiðslu, sem skapar svo
störf fyrir fleiri. Þarna eru margföldunaráhrif markaðarins að
verki. Má í þessu samhengi spyrja hvort sé betra að Juan búi
áfram á Kúbu, þar sem hann ekur á sínum Buick árgerð 1952 og
býr í íbúðarkompu frá ríkinu eða að hann stígi inn í vestrænt
markaðssvæði, þar sem hann fær starf en skapar um leið störf
við að framleiða fyrir hann mat, klæði, húsnæði og nýjan bíl?
Í leiðara The Economist kemur fram að „Samtök
vinnuveitenda í Þýskalandi segja að þeir þurfi 1,5 milljónir
starfsmanna með sérþjálfun auk þeirra sem fyrir eru. Um
fjórðungur vinnuafls í Ástralíu er erlendur, í Sviss er
hlutfallið um fimmtungur og í Bandaríkjunum einn sjötti.“
Í leiðaranum kemur einnig fram að höfundur
nýlegrar skýrslu hafi komist að þeirri niðurstöðu að
Bandaríkin „hagnist“ um 10 milljarða dollara á ári vegna
innflytjenda, þrátt fyrir að útgjöld vegna heilbrigðis- og
menntamála aukist. Það er ekki há upphæð en hafa ber í huga að
andstæðingar hugmyndanna hafa einmitt notað það sem rök að
aukinn innflutningur fólks hafi aukinn kostnað fyrir
samfélagið í för með sér og því séu þeir birði á því - taki
meira en þeir skapi. Einnig bendir leiðarahöfundur á að það
fjármagn sem fólk frá þriðja heims-löndum, búsett í vestrænum
löndum, sendir heim til sín nemur 100 milljörðum dollara á ári
hverju, sem er meira en öll þróunaraðstoð við löndin
samanlögð.
Áður fyrr, jafnvel allt fram á síðustu
öld, var sú stefna talin heppileg að reisa háa tollamúra á
allan innflutning erlendis frá. Þetta átti að halda lífinu í
innlendum framleiðendum, sem fengu þannig frið fyrir ódýrra
erlendri vöru. Nú er öldin önnur og menn hafa séð hvílík
vitleysa slík stefna er og hve slæm áhrif hún getur haft á
viðkomandi land og heiminn allan. Það er trú Frelsarans að
eins verði með þær miklu hömlur sem eru á flutningum fólks
milli landa nú verði litnar sömu augum innan fárra áratuga -
að menn hafi einfaldlega ekki vitað betur. Ég vona að sem
fyrst munum við sjá heiminn opnast og fólk geta flutt frá einu
landi til annars óhindrað og fréttir af fólki á
gúmmíslöngusiglingu eða köfnuðu í vörugámi heyri sögunni til.
Einu sinni var reistur múr í Evrópu sem
kallaður var Berlínarmúrinn. Hann féll fyrir rúmum 11 árum
síðan. Enn eru múrar út um allan heim, þó ekki í eins
bókstaflegri merkingu og sá sem stóð í Berlín. Vonandi að þeir
múrar heyri brátt sögunni til, rétt einsog Berlínarmúrinn, sem
enginn saknar.
ÁF
<< Til baka