Skrifin sem hér fara á eftir
Af mínum löstum vil ég byrja að játa á mig ein. Ég á mjög bágt með að halda mér saman þegar ég les
svona nokkuð. Það er eina ástæðan sem ég finn til að afsaka að ég skuli nú ætla að hafa fyrir því að svara
labbakúti. Nú skal gengið skipulega til verks:
Hér er linkur á
geirag.homepage.com sem er heimasíða Geirs til að spara mér að linka í textanum sem hér fer á eftir.
1)
Geir hefur fyrir því að búa til nýja síðu undir skrif sín, en segir þó á aðalsíðu sinni:
Af hverju er ég ekki að svara til saka við stúlku út af skrifum mínum? Föttuðu þær kannski um hvað ég væri að tala og hvar glettni og alvara skildu að? Gerir það einhver? Mér er vissulega alvara en glettnin er engu að síður til staðar.
Geir minn, ef þú segir "Gyðingar eru nískir" eða "Arabar eru glæpahyski" býstu þá virkilega bara við að fá svör frá Gyðingum eða Aröbum? Mér misbauð sem karlmanni að heyra slíkan þvætting sem skrif þín voru og svaraði þeim. Vonbrigði þín að þurfa að svara fyrir þau gagnvart karlmanni eru þitt vandamál.
2)
Geir hefur upp raust sína á sér-síðunni með þessum orðum:
Sæti litli súkkulaðistrákurinn hann Ágúst hefur verið iðinn við kolann upp á síðkastið að úthúða mér og fleirum á heimasíðunni sinni. Ég vissi ekki af tilvist þessa manns fyrr en miskunnsamur samverji benti mér á slóðina í þeirri von um að þessar árásir aftan að mér kæmu upp á yfirborðið.
Aftan að þér, já. Koma upp á yfirborðið, okey. Vissulega má segja að ég hafi verið að "úthúða þér" og "fleirum", sem eru þá væntanlega
skrif mín um Magnús. Ekki get ég skýrt út hvernig skrifin hafa farið fram hjá þér enda svosem alveg sama. Ef þú ert einsog fíll í feluleik sem heldur að það sem ÞÚ sjáir ekki sjáist ekki yfirhöfuð, þá bendi ég þér á að ég hef ekki verið með neitt pukur í kringum skrif mín, nema síður sé. Einnig vakti
Eva athygli á skrifum mínum, þannig ég skil ekki alveg hvert þú stefnir með þessu.
3)
Þú ásakar mig um að lesa bara valdar setningar úr skrifum þínum og greina ekki á milli "gefa ástæðu" og "afsaka". Geir minn, það sem ég átti við er að ef ég segi: "Þjóðverjar eru frekir" og bæti við "það er mín reynsla" er ég í raun og veru að viðurkenna að þessi alhæfing mín standi mjög völtum fótum þar sem óhugsandi er að heil þjóð geti verið dæmd á kynnum mínum af örfáum einstaklingum, hvað þá ef hálft mannkynið eru "Þjóðverjarnir". Ef þú vilt kalla þessa "gefnu ástæðu" mína fyrir skoðun minni á Þjóðverjum, svo ég haldi áfram með samlíkinguna, eitthvað annað en afsökun, þá ætla ég ekki að velta mér upp úr heimspekilegum vangaveltum um sögnina "afsaka" og orðasambandi "að gefa ástæðu".
4)
Svo telur þú upp analýsingu mína á þér, byggða á skrifum þínum - mín persónlega skoðun sem ég bað þig í umræddum skrifum mínum að afsaka ef þessi persónlega tilfinning mín fyrir persónunni Geir Ágústssyni væri röng. Og enn vitna ég í skrif þín, Geir:
...og var það eitthvað fleira sem ímyndarafl þessarar mannleysu datt í hug? Jú hann bjó til "bjórdrykkju/fótbolti/vanþroska-genið" handa mér, gaf mér hillingar fyrir Star Wars og öllu sem því fylgir ásamt minnimáttarkennd þegar ég var ungur sveinn. Er það upptalið? Það vona ég! Ætli það heilli kvenfólkið að tala illa um þá sem hafa aðra sýn á kvenfólki en femínistar?
Enn heldur þú þig á hinum gullna málefnalega vetvangi, einsog þér einum er lagið. Fyrst var ég sætur lítill súkkulaðistrákur (kem að því seinna) og nú er ég versta mannleysa. Jæja!
Genið bjó ég ekki til, ég vitnaði aðeins í
þrífa/elda-genið sem þú taldir mögulega orsök meints tölvuólæsis kvenna. Ég er enginn Kári Stefánsson en ég hef aldrei heyrt um eitthvert sér-femínskt eldabuskugen, en vildi endilega að þú bentir mér að heimildir þess efnis, ef þú gætir, Geiri boy.
Merkilegt hvað þér sárnar að þessu kaldhæðnisættaða meinta macho-geni skuli vera klínt á þig. Nóg um það, StarWars er fyrir mér tákngervingur tilvistarkreppu eftir-kvennabaráttu-karlmannsins, afturhvarf til þeirra gömlu góðu daga, barnæskunnar þegar strákar gátu barist með sverðum í bakgarðinum heima og leikið riddara, svona Benjamín-Dúfa fílingur. Upp úr þessum draumum barnæskunnar bjó George Lucas til StarWars-bálkinn. Merkilegt að ef þetta er framtíðin, hvar eru konurnar? En að þessum útúrdúr slepptum þá vil ég spyrja hvað þú átt við með þessari síðustu spurningu þinni, ég skil ekki alveg hvað þú meinar, ef þú átt við að ég hafi skrifað þetta til að ganga í augun á kvenfólki, er það misskilningur, svo yfirborðskenndur er ég ekki.
5)
Svo segist Geir ekkert hafa við þessu að segja nema:
Ágúst minn, litli froðufellandi reiði maður, sem greinilega telur sig hafa alla hluti nægilega mikið á tæru til að ausa úr orðabók illskunnar yfir aðra þeim að óvörum, ég vil bara benda þér á heimasíðuna mína og í þetta sinn skaltu hafa það í huga að "gefa ástæðu" er ekki sama og "afsaka", og einnig það að ég segi hreinlega frá því sem ég upplifi í kringum mig og mér sama þótt meirihluti manna sé á öndverðri skoðun. Ég segi bara mína hlið í eins auðskiljanlegu máli og mér er unnt en ef afleiðingarnar eru þessir þvílíku útúrsnúningar af þinni hálfu þá held ég að vandamálin liggi hjá þér en ekki mér.
Enn kemur lýsing á mér. Ég tel mig ekki hafa osið úr orðabók illskunnar yfir aðra, þeim að óvörum. Er þá ekki líka hægt að segja að þú hafir osið úr orðabók holdlegrar fýsnar þinnar yfir kvenfólk með skrifum þínum? Nei, ég segi nú bara svona. Gott er að menn segi sína skoðun, en ef þeir, sumsé ÞÚ, geta ekki tekið andsvörum/rökum á móti/gagnrýni, þó svo að viðkomandi andsvör/rök á móti/gagnrýni sé þeim ekki að skapi, þá vorkenni ég þeim, sumsé ÞÉR. Ég skrifa reiðilestur minn sem andsvör við þínum skrifum og bendi þér á, að því er mér þykir, rökleysi þitt og vissulega gagnrýni þínar skoðanir og þú getur ekki tekið því. Þetta er sami vandi og margur einræðiherrann hefur átt í, að kunna ekki að taka gagnrýni. Það er eitt af því sem flestallir læra smátt og smátt með aldrinum. Því verður þú að fyrirgefa mér að ég skuli leyfa mér að kalla svona lagað barnaskap af þinni hálfu. Ef þú telur mig snúa út úr þínum skrifum í andsvörum mínum, þá er þetta allavega sú mynd sem ég fæ af lestri þinna skrifa. Túlkun mín er byggð á því sem ég les út úr skrifum þínum og ef þú telur mig misskilja hljóta annaðhvort skrif þín vera svona misvísandi eða ég er að misskilja.
6)
Þú segir mér að fullorðnast ekki svona fljótt og tekur undir orð mín í 5. lið að hluta með þessum orðum:
...það er óþarfi að nöldra yfir því hvað aðrir eru að segja þótt gagnrýni sé alltaf ómetanleg meðan hún er gerð af manni með skýra hugsun.
Okey, ég gæti tekið þessu sem aðdróttunum um að ég hafi ekki skýra hugsun en kýs að gera það ekki, þar sem ég auk þess myndi ekki nenna að svara slíku.
Þar að auki vil ég benda þér á að ég hef ekki séð South Park og stefni ekki á að sjá þá þætti/bíómynd. Húmor fólks er misjafn og ef þú fílar "brandara - fáðu þér brjósthaldara" þá er það þitt mál, ekki mitt, ég ætla ekki að kalla þig vanþroskað fífl, né þá sem South Park hlægir. En það sem þú ert að vitni í með þessu eru það sem ég sagði um Magnús, þá var ég bara að líkja honum við töffarann á leikskólanum sem veður uppi með (á leikskólamælikvarðann) sorakjafti.
7)
Geir heldur áfram:
Ef ég sé mun á konum og körlum þá er það ekki þitt að æsa þig. Brostu bara og hugsaðu þér nú hvað heimurinn væri leiðinlegur ef kynin væru eins utan öðruvísi kynfæra og hvað hann væri ennþá leiðinlegri ef súkkulaðiljósabrúnir bílastyrktir pabbastrákar með stuttan þráð eins og sumir víst eru væru eitthvað algengari í þjóðfélaginu en nú er orðið.
Er það ekki mitt að æsa mig upp? Hverra þá? Ef ég segði að allir karlar væru skápahommar inn við beinið ætti þá enginn að segja neitt, kannski á þeim forsendum að því væri ekki svara vert en ef ég má nú ekki viðra skoðun mína á sama málefni og þú tjáir þig um, m.ö.o. svara skrifum þínum. Ef þú vilt meina að ég sé að æsa mig upp, þá er nokkuð til í því, rétt einsog ef þú segðir Hitler hafa gert mesta greiða fyrir mannkynið með útrýmingarbúðum sínum, þá myndi ég æsa mig upp, m.a.s. mun meira en ég gerði síðustu daga.
Enn ýjar þú að súkkulaðibrúnku minni og verð ég að svara því - hér neðar.
8)
Þar sem Geir varð svo títtrætt um muninn á "afsaka" og "gefa ástæðu" þá vil ég benda honum á að í eðli sínu eru orðin "takmarkanir" og "takmörk" ekki samheiti, en ætla ekki að fetta fingur frekar út í það og lesa um "takmarkanir kvenfólks" einsog ég skil hvert höfundur er að fara.
Það að kynin séu ólík - því mótmæli ég ekki. Hins vegar mótmæli ég öllum alhæfingum og dylgjum um að kvenfólk sé svona og hinsveginn (í tvíræðri merkingu þess orðs). Uppeldi og þjóðfélagsaðstæður móta fólk meira en Geir gerir sér greinilega grein fyrir, rétt einsog ég benti honum á.
Nú veit ég ekki við Geir hefur vanist en tel, í ljósi commenta einsog "þrífa/elda-genið", að Geir sé ekki það sem á íslensku kallast "jafnréttissinni" og á ég þá ekki við "femínisti" en munurinn, svo það fari ekki á milli mála, er sá að jafnréttissinnar, einsog ég, eru almennt á þeirri skoðun að jafnrétti skuli ríkja í þjóðfélaginu á milli kynjanna. Þannig er ég á móti kynjakvótum, nema að fólk finna sig knúið til að hafa slíka kvóta, þá á ég við að ef fólk vill frekar gæta þess að hafa jafnari skiptingu kynjanna þá sé það í lagi, en að lögbinda svo og svo stórt hlutfall á milli kynjanna tel ég fásinnu. Femínistar er sjálfsagt fylgjandi kynjakvótum o.þ.h. án þess þó að ég sé, eða telji mig, einhver sérfræðing í theorískri analýsingu á þessum hugtökum. Ég tel mig hinsvegar jafnréttissinna og tel m.a. að það sé ekki sjálfsagt að konur sinni stærra uppeldishlutverki en karlar, nú eða eldi oftar en karlar, þrífi og strauji. Kannski að mamma Geirs hafi gert þetta, rétt einsog mamma mín en tímarnir breytast og mennirnir með og vonandi að okkar kynslóð verði ekki smituð af kynjaskiptingu fyrri tíma.
9)
Að lokum segir Geir:
Ef Ágúst er ennþá ruglaður í ríminu og vill aftur fara semja fúkyrðafullar ræður á heimasíðuna sína um mig þá vil ég kannski öllu frekar bjóða honum að senda mér póst svo ég fari ekki að neyðast til að eyða meira plássi á mínu vefsvæði undir einfalt skilningsleysi þess manns sem nú er talað til.
Ég tel mig núna ekki í fúkyrðasmíðum en á heimasíðuna fer þetta. Þú þarft ekki að eyða þínu verðmæta vefsvæði undir einfalt skilningsleysi mitt, Geir minn. Annars hélt ég að
altavista gæfi ágætispláss, rétt einsog
Þrífóturinn minn, 50mb. Þú ert kannski búinn að fylla svæðið af Jennu Jameson-myndum en menn sníða sér stakk eftir vexti, þú mátt senda mér póst, þú mátt senda mér póstkort eða blóm og þú mátt líka sleppa að svara þessu, þitt er valið Geir.
Ég skrifaði fyrir opnum tjöldum og mun skrifa fyrir opnum tjöldum. Ég lít og leit ekki á þetta sem persónlegar árásir né persónulega deilu, aðeins skoðanaskipti á milli tveggja manna með ólíkar skoðanir, ef ég hef sært þig þá biðst ég enn og aftur afsökunar, einsog ég tók fram í skrifum mínum um þig áður, það sem ég sagði var skoðun mín byggð á því sem ég las af skrifum þínum. Ég þekki persónuna Geir Ágústsson ekki neitt, rétt eins og persónan Geir þekkir persónuna Ágúst ekki neitt. Ef þú hefur tekið þessu persónulega, sem mér sýnist, þá er það þitt að vinna úr því. Ég vil þér ekkert illt og óska þér einskis ills. Ég er friðelskur maður en get stundum verið hvass í orðum, en er fyrstu manna til að biðjast afsökunar ef ég fer yfir strikið. Reyndu nú að anda rólega og fúkyrði þín í minn garð bíta eigi á mér, því af írskum þrælum er ég kominn og köllum við ekki allt ömmu okkar. Um útlit mitt og samfélagsstöðu hefur þú ekki rismikla heimildamenn, ég er ekki lítill sætur súkkulaðistrákur, heldur 1.90 rauðhærður rauðbristingur með öllu því sem því fylgir. Ekki veit ég til þess að ég hafi verið talinn til fallegri manna, nema síður sé. Ímynd þín af Verzló er þitt vandamál og ætla ég ekki að svara fyrir hana. Ekki erum við Verzlingar allir súkkulaðibrúnir, þar sem rauðbristingshúð mín endist í 5 mín. í sól og eftir það tekur hún að brenna og fuðrar fljótt upp, hefur þetta ollið mér vandkvæðum í sólarlandaferðum og þekkir húð mín aðeins tvo liti: hvítt og rautt.
Að kalla mig "súkkulaðiljósabrúnan bílastyrktan pabbastrák með stuttan þráð" er fyndið því þær sakir hef ég einar til unnið að ég er, einsog sögur fara af rauðhærðum, með lítt-langan sprengiþráð, og ef að nýta sér gúddvill föður síns hjá verkstæðum og tryggingafélögum er bílastyrkur, þá er ég sekur en mömmustrák myndi ég mig frekar telja en pabbastrák, ef í þá sálma er farið.
En nú þykir mér aldeilis nóg komið. Ekki er oft sem ég finn til þvílíkrar þarfar til að svara nokkru einsog í kvöld. Ef þér hefur tekist að komast í gengum þessa langloku, óska ég þér til hamingju. Ef ég hef móðgað einhvern eða sært, biðst ég afsökunar. Ég ætla ekki að vera siðapostuli, en mér finnst að sumir ættu að sýna þann manndóm að gera slíkt hið sama, og við fleiri en mig.
Ágúst Flygenring